Skýrsla kvennanefndar

Kvennanefndina árið 2020 skipuðu Halla Bjarnadóttir, formaður, Auður H. Björnsdóttir, Bylgja Valtýsdóttir, Guðrún H. Gestsdóttir, Helga Halldórsdóttir, Signý Halla Helgadóttir og Sigríður K. Andrésdóttir. Lagður var grunnur að starfsárinu seinni hluta árs 2019 en það átti nú aldeilis eftir að taka breytingum.

Hin árlega Púttmótaröð fór af stað með hefðbundnum hætti þann 20. janúar en að þessu sinni fór það fram í Hraunkoti. Alls var spilað í átta skipti og lauk mótinu 9. mars en þá var heldur farið að draga úr mætingu sem segja má að hafi verið eðlilegt í ljósi aðstæðna. Þátttaka í mótaröðinni var þó með ágætum þar sem 55 konur mættu alls 185 sinnum sem er lítið minna en árið áður. Keppnin var mjög jöfn og oft mjög gott skor á skemmtilegum púttvelli. Aðstaðan í Hraunkoti býður þó ekki upp á eins góðar samverustundir á þessum mótum eins og þegar við vorum á heimavelli og söknuðum konur þess. Einnig þykir konum nokkuð langt að bruna alla leið í Hraunkot.

Þegar leið að vori tók við tímabil þar sem viðburðum var frestað s.s. Kvennakvöldi, Vorgleði og Vorferð. Brugðið var á það ráð að hafa verðlaunaafhendingu Púttmótaraðarinnar með nýju sniði þar sem tvær nefndarkonur óku um höfuðborgarsvæðið á sitthvorum bílnum og veittu verðlaunin og var afhendingunni streymt í gegnum Facebook Live. Téðar nefndarkonur skemmtu sér gríðarlega vel í þessari reisu og vonandi þeir sem fylgdust með. Það má vel vera að þessi háttur verði oftar hafður á.

FUGLAR og ERNIR söfnunin var með hefðbundnu sniði, kassinn á sínum stað og safnaðist fjöldinn allur af fuglum og þónokkrir ernir. Ákveðið var að draga reglulega út FUGLAPRINSESSUR yfir sumarið og var það í fyrstu gert á Facebook Live en alls voru dregnar út fimm prinsessur. Í haust var síðan FUGLADROTTNING dregin út og þá þurfti einnig að notast við Live útsendingu.

Þar sem erfitt var með mótahald og aðsókn á völlinn mikil var ákveðið að brydda upp á nýjung í félagsstarfi Oddskvenna en það er MÓTARÖÐ þar sem konur gátu skráð sig á hefðbundinn rástíma á ákveðnum dögum eða tímabili og skilað gildu skorkorti í mótaröðina. Keppt var bæði í punktakeppni með forgjöf og höggleik án forgjafar. Í heildina var hægt að skila inn sex skiptum og tóku 29 konur þátt. Þrátt fyrir að frekar fáar konur hafi skilað inn skorkortum í mótið þá mæltist þetta fyrirkomulag nokkuð vel fyrir og sérstaklega þegar unnt var að skila „besta hring á tilteknu tímabili“. Það er því ekki ólíklegt að einhverja útfærslu af þessari mótaröð megi finna í dagskrá næsta árs.

Það fylgdi því talsverð gleði að geta haldið VINKVENNAMÓT GO og GK og var það með „gamla sniðinu“ þetta árið. Spilað á Urriðavelli 16. júlí og 24. júlí á Hvaleyrarvelli þar sem vellirnir voru báðir nokkuð þéttsetnir og við náðum ekki tveimur dögum í röð. Mótið heppnaðist ljómandi vel og voru margar glaðar Oddskonur sem lyftu bikarnum í lokahófinu á Hvaleyrinni eftir góðan sigur á Keiliskonum – annað árið í röð!

GO konur með bikarinn fyrir sigur í vinkvennamót GO og GK

Þá kom aftur tímabil þar sem viðburðum var frestað en Ljúflingsmótinu var frestað og Lokahófi var síðan frestað.

Lokamót náðum við þó að halda 3. október en með nýju sniði þar sem ekki var ræst út af öllum teigum samtímis. Rástímar voru með hefðbundnu sniði, möguleiki á að spila 9 eða 18 holur og ekkert lokahóf. Verðlaun voru hins vegar afhent um kvöldið og sóttu verðlaunahafar í Lokamóti og Mótaröð sín verðlaun.

Árið var því með nokkuð óhefðbundnum hætti en ákaflega ánægjulegt engu að síður. Eftir stendur að við getum alltaf fundið leiðir til að hafa virkt félagsstarf í golflífinu okkar og gert okkur glaðan dag og við eigum að vera óhræddar við að brydda upp á nýjungum eða að fara troðnar slóðir í kvennastarfinu.

Með kærri Oddskveðju

F.h. kvennanefndar GO

Halla Bjarnadóttir