Skýrsla afreksnefndar

Undanfarin ár hefur mér verið tíðrætt um aðstöðuleysi okkar í GO í ársskýrslum og hvað það hamlar uppbyggingu á íþróttastarfi. Ég sem félagsmaður í mínu íþróttafélagi á orðið erfitt með að skilja hvers vegna uppbygging aðstöðu á okkar vallarsvæði er ekki í neinu samræmi við núverandi og framtíðar aðstöðu okkar helstu nágranna. Þessi staða er mörgum félagsmanninum einnig óskiljanleg hef ég heyrt, enda það bersýnilegt öllum að það gætir gífurlegs ójafnréttis í þessum málum í okkar byggðarfélagi.

Eins og staðan er í dag höfum við í GO þurft að reiða okkur á nágranna okkar í GKG þegar kemur að æfingum á veturna og það samstarf hefur gengið vel. Utanaðkomandi aðstæður hafa visslulega opnað aðeins stærri glugga fyrir okkur núna vegna þess að GKG hefur vissulega tímabundið fengið inni hjá okkur á sumrin með sínar æfingar sökum þess að þeir þurftu að gefa eftir sitt æfingasvæði nýlega til Garðabæjar. Þetta kann að hljóma eins og það sé því ekki svo mikill munur á því að báðum þessum félögum eru settar hömlur á því hvað þau geta boðið sínum félagsmönnum og æfingahópum en þegar það er nánar skoðað kemur í ljós að okkar aðstæður eru sýnilega varanlegar á meðan að GKG er í tímabundnu ástandi þar sem verið er að leggja lokahönd á glæsilega stækkun inniaðstöðu. Á plani er svo stækkun golfvallar GKG, uppbygging æfingapúttflatar er langt komin og í bígerð er uppbygging á nýju úti æfingasvæði og tilfærslu á hluta golfvallarins svo eitthvað sé talið upp. Allt þetta er í dag bundið í samkomulag og á fjárlögum Garðabæjar næstu árin á meðan við hér í okkar fallega umhverfi rétt sunnar í Heiðmörk í Garðabæ sjáum enga uppbyggingu í kortunum og engin framlög frá bæjarfélaginu til uppbyggingar hér á íþróttaaðstöðu.

Æfingaárið hófst í janúar 2020 þegar við gátum byrjað æfingastarf eldri hópa í vetraraðstöðu GKG og þeim æfingum var svo hætt þegar samkomuhömlur voru settar á og því var tekið hlé á æfingum fram að opnum golfvalla í vor. Hefðbundið æfingastarf var svo í gangi í sumar á æfingasvæði okkar á Urriðavelli þar sem keppnislið voru við undirbúning fyrir keppnir á Íslandsmótum golfklúbba. Æfingastarf unglinga lá að mestu leiti niðri árið 2020, við buðum þeim fjölmörgu börnum sem komu á golfleikjanámskeið ársins að mæta á reglulegar æfingar þegar leið á sumarið en það var meira til að styðja við þau námskeið. Líklegt er að þeir ungu kylfingar sem hingað komu í sumar munu leita til annara félaga sem hafa burði og getu til að skipuleggja æfingastarf á ársgrundvelli eins og kröfur eru um í þessari íþrótt í dag. Við sendum því engin lið í ár á mót yngri iðkenda á vegum GSÍ en stefnum á að reyna aftur á næsta ári.

Við áttum fulltrúa á Íslandsmóti einstaklinga þar sem þeir Skúli Ágúst Arnarson og Axel Óli Sigurjónsson tóku þátt á sterku Íslandsmóti. Hrafnhildur Guðjónsdóttir lék á nokkrum stigamótum GSÍ í flokki fullorðinna í upphafi ársins en tók ekki þátt sökum meiðsla í mótum eftir miðjan júlí.  Margir af okkar eldri keppniskylfingum sem eru gjaldgengir á LEK mótaröð eldri kylfinga létu sjá sig á allmörgum mótum á veg LEK. Á Íslandsmóti eldri kylfinga léku tveir fulltrúar GO,  Björg Þórarinsdóttir hafnaði í 4. sæti í flokki 65 ára og eldri og Ingi Þór Hermannsson hafnaði í 43. sæti í flokki 50 ára og eldri.

Kvennaliði GO keppti í efstu deild kvenna á Íslandsmóti golfklúbba sem haldið var á okkar heimavelli sameiginlega með GKG þar sem klúbbarnir skiptu mótinu milli vallanna líkt og gert var 2019. Keppnin í ár var hörkuspennandi og okkar konur enduðu í keppni um 5. – 8. sæti og Oddskonur börðust við lið GV um sæti í efstu deild sem lauk með naumum sigri GV og því hlutskipti okkar kvenna að leika í 2. deild að ári. Við höfum svo sem vanist því í þessari deild að vera færðar upp um deild að ári en það er ágætis meðbyr í kvennagolfinu og ólíklegt að það verði hlutskipti okkar kvenna á næsta ári og stefnan er því sett á að endurheimta sæti okkar í efstu deild.

Keppnislið GO kvenna 2020, Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Unnur Helga Kristjánsdóttir, Bryndís Hanna Hreinsdóttir, Etna Sigurðardóttir, Elín Hrönn Ólafsdóttir, Auður Skúladóttir, Berglind Rut Hilmarsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir.

Karlasveit GO lék í 2. deild karla á Íslandsmóti golfklúbba en leikið var á Akranesi á Garðavelli dagana 24. – 26. júlí. Okkar menn léku fyrsta leik við Nesklúbbinn, í öðrum leik mættu þeir Golfklúbbi Selfoss og í þriðja leik liði Golfklúbbs Skagafjarðar. Leikurinn við Nesklúbbinn var hörkuspennandi en svo fór að lokum að okkar menn töpuðu honum 3/2. Í leiknum við Selfoss var mikil keppni sem endaði þannig að Selfyssingar náðu að sigra 4 /1. Þegar kom að þriðja leiknum í riðlinum voru okkar menn komnir í gang og kláruðu þann leik 3 / 2 gegn liði Skagafjarðar. Fjórði leikur liðsins var svo leikinn í eftirmiðdaginn á laugardeginum og þar tóku okkar menn sinn leik örugglega 4 / 1 gegn liði Húsavíkur. Lokaleikur okkar manna var svo við lið Kiðjabergs þar sem leikið var um 5. sætið á mótinu og þar voru okkar menn á flugi og kláruðu þann leik örugglega 4 – 1.

Keppnissveit GO skipuðu frá vinstri, Bjarki Þór Davíðsson,Óskar Bjarni Ingason, Skúli Ágúst Arnarson, Ernir Steinn Arnarsson, Rögnvaldur Magnússon, Axel Óli Sigurjónsson, Atli Elíasson og á myndina vantar Theodór Sölva Blöndal.

Við áttum flotta fulltrúa á Íslandsmóti golfklúbba í flokki 50 ára og eldri bæði í karla og kvennaflokki. Bæði lið GO kepptu í efstu deild þar sem okkar konum sem áttu að keppa í 2. deild var boðin þátttaka í 1. deild sökum forfalla. Það kom bersýnilega í ljós að okkar konur áttu svo sannarlega heima í efstu deild og léku þær afskaplega vel og sigruðu lið GM og Nesklúbbinn í riðlakeppninni sem skilaði þeim í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitil þar sem okkur konur mættu liði GK. Sá leikur tapaðist og lið GK kláraði svo mótið og sigraði og okkar konur töpuðu svo leik um þriðja sætið við lið GKG en engu að síður er þetta besti árangur keppnissveitar GO kvenna í eldri flokki í langa tíð ef ekki bara alla tíð.

Keppnislið GO kvenna 50 + frá vinstri talið Jóhanna Dröfn Kristinsdóttir, Ágústa Arna Grétarsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Björg Þórarinsdóttir, Ingibjörg S. Helgadóttir, Anna María Sigurðardóttir, Dýrleif Arna Guðmundsdóttir, Unnur Kristjánsdóttir og okkar frábæri kennari og liðsstjóri Rögnvaldur Magnússon.

Í karlaflokki var leikið á Akureyri og okkar menn léku í hörkuriðli með liðum GA, GR og GS. Fyrst var leikið við lið GR og var sá leikur jafn í nokkrum viðureignum en tapaðist þó að endingu 5/0. Í næsta leik mættu okkar menn liði heimamanna og tapaðist sá leikur 4/1 og því ljóst að okkar menn þurfti svo sannarlega að sigra í lokaleik sínum við lið GS sem hafði þá m.a. unnið sterkt lið GA. Okkar menn stóðust svo sannarlega pressuna og kláruðu þann leik 3,5/1,5. Okkar menn áttu þá leiki um 5 – 8. sæti og fyrst mættu okkar menn liði Nesklúbbsins og þar fór lið GO með sigur 3/2 og því ljóst að sæti í deildinna var tryggt að ári sem var grunnmarkmiðið. Í lokaleiknum var leikið við lið GK og tapaðist sá leikur 3,5/1,5 og okkar menn enduðu í 6. sæti.

Það vantaði ekki sólina og þarna var ljósmyndarinn greinilega í sólbaði en lið GO var svona skipað: Magnús R. Magnússon, Phill Hunter, Ingi Þór Hermannsson, Jón Bjarki Sigurðsson, Reynir Daníelsson, Sigurhans Vignir, Ragnar Gíslason og Óskar B. Ingason

Þeir sem tóku þátt í afreksstarfinu í ár fá mínar þakkir fyrir sitt framlag sem frábærir fulltrúar okkar eins og undanfarin ár.

Svavar Geir Svavarsson,

formaður afreksnefndar GO