Framkvæmdir

Framkvæmdir og fjárfestingar:

Við vorum róleg í vallarframkvæmdum á fyrri hluta ársins þar sem erfitt var að manna svæðið vegna þeirra aðstæðna og takmarkana sem í gildi voru vegna Covid. Þegar snjó fór að leysa og aðstæður sköpuðist til þess að ganga í ýmis verk var byrjað á frágangi á vinnusvæðum sem byrjað var á haustið 2019. Meðal verkefna var að klára tyrfingu við færða glompu á 8. braut. Glompu aftan við 2. braut var lokað en hún þótt ekki lengur passa inn í þá sýn sem við höfum á vellinum. Lokun glompa á vellinum er svo verkefni sem við erum að vinna að markvisst og í lok árs 2020 var glompu hægra megin við 14. braut lokað. Á plani er svo að loka 2-3 glompum á næstu árum og teljum við að það muni ekki hafa nein áhrif á upplifun kylfinga á okkar vallarsvæði.

Í vor og í byrjun sumars var svo klárað að leggja gervigras á gönguleiðinni frá 14. braut að 15. braut og frá 15. braut og niður stíginn meðfram fremsta teig á 16. braut. Við höfum lagt á það áherslu að ganga vel frá álagssvæðum með þessum hætti og þetta hefur tekist vel og góður rómur af frágangi á þessum gönguleiðum.

Við 12. braut var farið í uppsetningu og frágang á öryggisgirðingu við fremsta teig og biðsvæði til að tryggja öryggi þeirra kylfinga sem bíða eftir að komast á teig. Höfum við haldið í þann stíl sem fyrst sást á 9. braut og hefur fallið snyrtilega inn í okkar umhverfi og öruggt að við stefnum á að halda áfram að vinna að öryggi kylfinga á þeim stöðum sem nauðsyn ber til.

Á haustmánuðum 2020 var svo farið í að endurnýja dren og vatnsúðarakerfi í kringum 14. og 16. flöt, ásamt því að vatnskerfi var einnig lagt inn á 14. brautina á svæði sem í gegnum tíðina hefur verið erfitt að vökva. Þetta ætti að tryggja betur gæði gras á þessu svæði og spara ómælda vinnu við að draga ofaná liggjandi handstýrt kerfi sem er bæði tímafrekt og fellur illa að leik kylfinga.

Vinna hófst svo á haustmánuðum eftir lokun vallar við uppsetningu á girðingum í kringum æfingasvæðið og er það verkefni klárt að 2/3 hlutum núna.

Það er alltaf fagnaðarefni þegar nýjir starfsmenn taka til starfa og við færðum okkur aðeins inn í nýja tækni í þeim málum og til starfa á vellinum voru keyptar tvær slátturvélar eða róbótar sem fengu það hlutverk að sjá um allan slátt á fremsta hluta 1. brautar og á svæðinu fyrir framan og kringum teiga á 3. og 6. braut. Þeir stóðu sig afar vel í sumar og að sögn Tryggva vallarstjóri var áberandi hversu jafn og góður slátturinn var á þessum svæðum. Fyrirhugað er að fjölga þeim á komandi árum og láta róbóta sinna þeim svæðum sem kylfingar almennt slá yfir og því ætti truflun af þeim að vera minniháttar á næstu árum.

Á árinu 2020 var lyft grettistaki í klippingu trjáa og snyrtingu gróðurs á svæðinu. Flestir kylfingar urðu þess helst varir í sumar í skóginum við 17. braut og fleiri svæði voru svo snyrt og fegruð í sumar. Það er ekki lítið verkefni að fara yfir gróður á svona stóru svæði og við vorum gífurlega heppnir að fá til verkefnisins tvo áhugasama félagsmenn, þá Heimi Sigurðsson og Halldór Leifsson og færum við þeim sérstakar þakkir fyrir.

Þau verkefni sem vinna hófst í haust og fyrirhuguð er einnig í vor og félagsmenn verða svo kannski varir við þegar við opnum 2021 eru m.a. að rafmagn var lagt út frá golfskála milli 9. brautar og 18. brautar til að undirbúa frekari róbóta-væðingu, sett var upp hlið við innkeyrslu á golfvallarsvæðið sem ætlað er að takmarka umferð inn á svæðið yfir nóttina, vinna hófst við uppbyggingu nýrra teiga á 14. braut sem munu vonandi koma inn þegar líður á sumar 2021 eða í upphafi árs 2022 og mun það eflaust gleðja marga kylfinga.

Við færum okkar frábæru vallarstarfsmönnum sem leiddir eru áfram af okkar góða vallarstjóra Tryggva Ölver Gunnarssyni sem var að klára sitt 20. starfsár á Urriðavelli.