Börn & unglingar

Golfleikjaskóli Golfakademíu Odds

Haldin voru fimm golfleikjanámskeið sumarið 2020 og sóttu um 240 krakkar þau námskeið. Hvert námskeið var í viku og kennslutími frá 9 – 12. Vinsældir námskeiðanna hafa aukist ár frá ári og rúsínan í pylsuendanum er vissulega sú að allir þátttakendur á námskeiðum fá fulla félagsaðild að Ljúflingi og geta spilað allt sumarið þar.

Á námskeiðunum eru börnunum kennd grunnatriði golfíþróttarinnar. Kennslan er uppsett með æfingum og leikjum með það að markmiði að skapa ánægjulega upplifun fyrir börnin.

Golfkennsla á öllum námskeiðunum var í höndum PGA kennaranna Phill Hunters og Rögnvaldar Magnússonar ásamt því að með þeim störfuðu leiðbeinendurnir, Axel Óli Sigurjónsson, Birgitta Ösp Einarsdóttir og Noah Alex Hunter.
Öllum iðkendum er svo boðið að taka þátt í almennum æfingum klúbbsins fyrir þennan aldurshóp og við vonumst vissulega til þess að það stækki okkar barna og unglingastarf með árunum.