Skýrsla mótanefndar

Kæru félagar.

Mótaárið 2020  var skrítið mótaár sökum þessarar blessuðu Covid-19 veiru. Sá góði andi sem verið hefur í félagslífi okkar undanfarin ár bjargaði miklu og þó mörgum viðburðum hafi verið slegið á frest eða haldnir án lokahófs eða einhverjar takmarkanir í gangi þá gekk mótahald nokkurn veginn sinn vanagang.

Á vegum mótanefndar voru haldin 8 innanfélagsmót, tvö opin mót, tvö mót í tengslum við GSÍ eða alls 12 mót sem fulltrúar mótanefndar komu að. Að öðru leiti voru haldin 4 boðsmót á vellinum sem starfsmenn GO sjá um.  Samkomubann og aðrar hömlur urðu þess því valdandi að það fækkaði stórum mótum en þess í stað bættust nokkur minni mót við dagskrá sumarsins þar sem fyrirtæki leigja hluta úr degi en þá er völlurinn einungis lokaður í 2klst eða skemur. Almennt eru svo nokkur enn þá minni mót þar sem 2-10 rástímar eru nýttir og sum þeirra móta birtast í mótaskrá en teljast ekki með sem mót í þeim skilningi.  Alls tóku um 3000 keppendur þátt í þessum mótum í sumar.

Stærstu viðburðir okkar almennt á hverju ári eru vissulega okkar eigin innanfélagsmót. Liðakeppni GO, Meistaramótið, Holukeppni GO og Bændaglíma GO eru þar okkar stærstu mót og þátttaka þar var í raun frábær í ár eins og undanfarin ár.
Liðakeppni GO var sú fjölmennasta í sögunni og gaman að sjá hvað það mót er alltaf vinsælt. Sigurvegarar þar voru hinar stórglæsilegu Fyrirsætur sem unnu í ár með nokkrum yfirburðum þó keppni hafi verið jöfn og spennandi fram á síðasta mót.

Frá vinstri, Björg Þórarinsdóttir, DíDí Ásgeirsdóttir, Hervör Lilja Þorvaldsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Jóhanna Dröfn Kristinsdóttir og Bergþóra María Berþórsdóttir sem skipuðu liðið Fyrirsæturnar í liðakeppni GO 2020

 

Meistaramótið var fjölmennt í ár og um 250 keppendur skráðu sig til leiks. Þarna var loksins eitthvað fjör enda höfðu verið fjöldatakmarkanir og engar veislur þangað til kom að lokahófi meistaramóts sem þótti heppnast afar vel.

Klúbbmeistarar GO 2020 Skúli Ágúst Arnarson og Hrafnhildur Guðjónsdóttir

Verðlaunahafar á meistaramóti GO 2020

Holukeppni GO var haldin sér fyrir karla og konur og svo kepptu sigurvegarar í hvoru flokki innbyrðis um titilinn holumeistari GO. Í kvennaflokki sigraði Laufey Sigurðardóttir og í karlaflokki Arnar Grant, það var svo Laufey sem kláraði leikinn á milli þeirra tveggja og er því holumeistari GO 2020

 

Einn af gullmolum okkar í mótahaldi, Bændaglíman, sprengdi alla skala í þátttökufjölda í ár og þar komust færri að en vildu. Til að mæta þeim fjölda sem skráður var og til að tryggja að allir ættu hér frábæran dag brugðum við á það ráð að færa veisluhöldin öll út á völlinn enda engin leið að koma öllum í hús þar sem fjöldatakmörk bönnuðu slíkt. Bændur komu sér fyrir á sitthvorum helmingi vallarins og veittu keppendum léttar veigar í föstu og fljótandi, við settum upp stöð fyrir utan golfskálann og þar var sannkölluð partý stemming þar sem keppendur gátu fengið sér ýmislegt að snæða og drekka og svo þegar mótið var hálfnað var búið að kynda upp í grillinu og allir gátu sótt sér gómsætan gæðaborgara. Við vorum afar ánægð með útkomuna á þessari bændaglímu og hver veit nema þetta sé form sem verður endurtekið á komandi árum.

Önnur mót sumarsins voru svo vel heppnuð og óþarfi að telja þau öll upp, við söknuðum þó aðeins stóra Innanfélagsmótsins sem hefur verið haldið í kringum 17. júní en við reynum að gera það enn glæsilegra og flottara á nýju ári. Við þökkum þeim styrktaraðilum okkar sem héldu hér opin og lokuð mót, stærsta opna mót sumarsins hjá okkur var ZO-ON OPEN.

Þegar skoðuð er tölfræði úr mótum sumarsins í gegnum golfbox er áhugavert að sjá að meðalskor úr golfmótum er 101 högg, erfiðasta hola vallarins er 10. hola með meðalskor 6,4 sem er í hærra lagi fyrir par 4 holu. Það voru einungis 14 ernir og 7 af þeim náðust á 5. braut. 790 fuglar lentu á Urriðavelli og flestir þeirra eða 115 létu sjá sig á 5. braut svo það er svo sannarlega hægt að kalla það fuglabraut Urriðavallar.

Mótanefndarfólki og öðrum þeim sem lögðu fram krafta sína í sjálfboðavinnu vegna móta sumarsins  vil ég þakka sérstaklega fyrir samstarfið á árinu. Fórnfýsi ykkar hefur verið ómetanleg og engan veginn er hægt að fullþakka hana. Starfsfólki GO, starfsfólki veitingasölunnar og öllum þeim sem komu að mótum GO í ár með einhverjum hætti vil ég einnig þakka fyrir gott samstarf á árinu.

Með golfkveðju, Valdimar Júlíusson formaður mótanefndar